Mat á skólastarfi

Mati á skólastarfi er skipt í innra og ytra mat. Með innra mati er átt við sjálfsmat stofnunar og er unnið af starfsmönnum hennar. Markmið innra mats er að tryggja að starfsemi skólans sé í samræmi við lög, reglugerðir og aðalnámskrá leik- og grunnskóla. Grundvallaratriði innra mats er að það stuðli að umbótum sem bæti skólastarfið og efli skólaþróun. Með ytra mati er átt við úttekt á starfsemi stofnunar sem unnin er af utanaðkomandi aðilum. Í gildandi lögum um leik- og grunnskóla er að finna ákvæði um mat á skólastarfi. Þar er megináhersla lögð á sjálfsmat skóla en jafnframt ber Menntamálaráðuneytinu að sjá til þess að fram fari ytra mat á starfsemi einstakra skóla eða á einstökum þáttum skólastarfs og jafnframt að úttekt sé gerð á sjálfsmatsaðferðum skóla. 

Innra mat Tálknafjarðarskóla

Innra mats teymi 


Birna Friðbjört S. Hannesdóttir, skólastjóri

Agnieszka Slomska, deildarstjóri leikskóla 

Helga Birna Berthelsen, fulltrúi grunnskólans

Hrútur Teitsson, fulltrúi starfsfólks

Eygló Hreiðarsdóttir , fulltrúi foreldra

Andrés Páll, fulltrúi nemenda

Það er metnaðarmál í Tálknafjarðarskóla að allir þættir mats á leik- og grunnskólastigi taki mið af skýrum gæðaviðmiðum. Gæðaviðmið skólans eru í vinnslu matsteymis og verða sett fram jafnóðum og þau eru klár og samþykkt. Þau byggja á gæðaviðmiðum MMS um gæða skólastarf. Innra mat er samofið ölllu skólastarfi og stöðugt til umfjöllunar í öllu skólastarfi skólans. Kennarar, nemendur, foreldrar og fræðsluyfirvöld eru meðvitaðir um með hvaða hætti skólastarfið miðar stöðugt að því að uppfylla eigin gæðaviðmið. 


Í júní ár hvert skilar Tálknafjarðarskóli  sjálfsmatsskýrslu til fræðslunefndar Tálknafjarðarhrepps með tímasettri umbótaáætlun.

Innra mat langtímaáætlun

Greinargerðir um innra mat og umbótaáætlanir

Ytra mat Tálknafjarðarskóla

Menntamálastofnun sér um framkvæmd ytra mats í leik- grunn- og framhaldsskólum fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Tveggja manna matsteymi metur skólann. Lögð er áhersla á að matsaðilar hafi kennaramenntun og reynslu af grunnskólastarfi, þekkingu á matsfræðum og reynslu af eigindlegum rannsóknaraðferðum. Gæta þarf að sérstöku hæfi matsaðila til að meta viðkomandi skóla sbr. II. kafli stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Menntamálastofnun tilnefnir annan matsaðila og gefur sveitarfélaginu kost á að tilnefna hinn aðilann að höfðu samráði við Menntamálastofnun. Kjósi sveitarfélag að tilnefna matsaðila þarf það að tilkynnast fyrir ákveðinn tíma að öðrum kosti leitar Menntamálastofnun til reyndra aðila sem starfað hafa fyrir stofnunina.

Markmið með ytra matinu er meðal annars að vera skólum hvati til frekari skólaþróunar, styðja stjórnendur og kennara í umbótum á eigin starfi og efla og styðja innra mat og gæðastjórnun skóla. Ekki er verið að leggja upp með að gera samanburð á skólum heldur nota samræmdar matsaðferðir þannig að í öllum skólum verði skólastarfið metið með sambærilegri nálgun og á grundvelli sömu viðmiða.

Þeir þrír matsþættir sem eru þungamiðjan í matinu eru: (1) Stjórnun, (2) nám og kennsla, (3) vinnubrögð við innra mat. Einnig er gert ráð fyrir að skóli, skólaráð eða sveitarfélag geti komið fram með óskir um að matsteymi skoði sérstaklega einhvern fjórða þátt í starfi viðkomandi skóla svo fremi sem hægt er að meta viðkomandi þátt með þeim gagnaöflunaraðferðum sem notaðar eru í matinu.